152. löggjafarþing — 56. fundur,  24. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:06]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Varðandi hámarksbinditímann myndi ég kannski vilja bæta því við að samkeppnisaðstæður eru auðvitað líka breyttar, eins og staðan er í dag á íslenskum fjarskiptamarkaði, frá því sem áður var. Við bindum líka vonir við að það verði ákveðið aukið svigrúm í formi aðeins lengri hámarksbindingar, sem getur reynst neytendum í hag með tilliti til framboðs, þjónustu, vöru og verðlagningar. Það eru tækifæri þarna og við sjáum miklu meiri samkeppnisaðstæður á íslenskum markaði í dag en var bara fyrir örfáum árum. Við búum í samkeppnisumhverfi í fjarskiptum og það er eðlilegt að fjarskiptafyrirtækjum sé þá frjálst að binda tímann í allt að 12 mánuði.

Varðandi hina athugasemd Neytendasamtakanna þá þyrfti ég að fá að skoða það betur. Ég held að ekki hafi verið brugðist við því með beinum hætti en það er eitthvað sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd mun eflaust skoða.