152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

um fundarstjórn.

[16:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Í ljósi þess að frú forseti gefur ágætis svigrúm til umræðu vildi ég koma hingað upp og taka upp hanskann fyrir tvo hv. þingmenn, annars vegar hv. þm. Tómas A. Tómasson og hins vegar hv. þm. Ásmund Friðriksson. Það sem hv. þm. Tómas A. Tómasson sagði í ræðu hér áðan var allt rétt, eftir því sem ég kemst næst, og það var áhugavert að heyra að hv. þm. Ásmundur Friðriksson hefði staðið vaktina í þessu máli sem ég hafði ekki hugmynd um, frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni það. Ég taldi að Miðflokkurinn hefði verið nánast einn í að benda á ágallana á þessu fráleita máli Pírata sem ríkisstjórnin tók svo upp á sína arma.

En eiga ágætir hv. félagar mínir í stjórnarandstöðunni að vera hissa á því og koma hér og ræða það sérstaklega að Framsóknarflokkurinn segi eitt og geri svo annað? (Gripið fram í.) Þetta er viðskiptamódel flokksins, frú forseti. Ég er fyrst og fremst feginn því að nú telji flokkurinn að það sé skynsamlegt að segja þó það sem ég geri ráð fyrir að flesta flokksmenn langi til að segja, (Forseti hringir.) að þetta sé auðvitað fráleitt mál sem vonandi kemur ekki hér inn aftur.