152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

fæðuöryggi þjóðarinnar í ljósi stríðsins í Úkraínu.

[17:03]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir þessa góðu umræðu sem hér hefur átt sér stað og sérstakar þakkir til forsætisráðherra fyrir sína góðu ræðu. Mig langar hér í byrjun að koma aðeins inn á það að sumum hv. þingmönnum hefur orðið tíðrætt um tolla og höft. Ég vil bara hvetja hv. þingmenn til að kynna sér tollskrána og fara yfir það á hvað við erum að leggja tolla. Þegar menn átta sig á því að 87% af þeim matvælum sem eru flutt hingað til lands eru án tolla þá held ég að menn hægi aðeins á sér í þessari umræðu. Það er ekki það sem stendur okkur fyrir þrifum. Það sem hugsanlega blasir við okkur núna er að hnökrar komi á aðfangakeðjuna til landsins. Það er mjög mikilvægt í því samhengi að við hugsum til þess og setjum okkur það markmið að við séum með, mitt mat, tveggja ára birgðir af korni, olíu og áburði, að það séu bara til birgðir af þessu, hvort sem við eigum við stríð eða heimsfaraldur eða vegna veðurfars. Það er mjög mikilvægt upp á okkar innlendu framleiðslu að standa vörð um þetta. Það er gríðarlega mikilvægt. Og síðast en ekki síst þurfum við að endurskoða starfsskilyrði landbúnaðarins heima til þess að gera honum kleift að takast á við þessi verkefni. Ég bendi bara á eitt lítið atriði hér í restina, frú forseti. Við getum bætt mjög mikið í í ræktun korns. Við erum að framleiða núna 6.500–7.000 tonn en neyslan er 150.000 tonn bara í dýrafóðri.

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir mig.