152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

Grímseyjarferja.

431. mál
[18:20]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Það er nefnilega þannig að svo lengi sem það er ekki markviss stefna ríkisstjórnarinnar að íbúar Vestmannaeyja, Flateyjar, Hríseyjar og Grímseyjar séu fluttir nauðungarflutningum úr eyjum og í land þá er það skylda ríkisstjórnarinnar að tryggja íbúum þessara eyja viðeigandi, reglulegar og öruggar ferjusamgöngur. Nú þegar orkuskipti á sjó eru hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í viðbrögðum við loftslagsvá skapast kjörið tækifæri til þess að endurnýja eða endurbæta þær ferjur sem í dag sigla á þessum leiðum og gera endurmat á því hvernig bæta megi þá þjónustu sem veitt er til að heimsækja þessar náttúruperlur Íslands.