152. löggjafarþing — 57. fundur,  28. mars 2022.

endurheimt votlendis.

360. mál
[20:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála segir að efla þurfi landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis til að mæta skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum. Ég vil því þakka hæstv. umhverfis-, orku og loftslagsráðherra fyrir að ræða við mig um spurningar varðandi mat á forsendum og fýsileika endurheimtar votlendis hverju sinni. Það er óumdeilt að mikið kolefni er bundið í lítið rotnuðum jurtaleifum í votlendi og því getur framræsla þess leitt til losunar gróðurhúsalofttegunda því að gróðurleifar rotna hraðar í þurru landi en blautu. Gleymum samt ekki að náttúran er ekki stöðluð, hún stendur ekki í stað. Hún er breytileg eftir árstíðum, breytingar verða í áranna rás og þannig tekst náttúrunni stundum sjálfri að endurheimta votlendi þótt skurður hafi einhvern tímann verið grafinn.

Þannig hefur náttúran nú þegar leyst vandann sums staðar. Hún er búin að bleyta upp í landinu og annars staðar er hún á góðri leið með það. Töluvert af skurðum breyttu aldrei neinu því að náttúran lék bæði á mælinga- og gröfumenn á sínum tíma þannig að landið þornaði lítið eða ekkert við framræslu. Upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda frá framræstu votlendi á Íslandi eru nokkuð misvísandi og þá liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um stærð raskaðs votlendis. Lífrænt efni er svo mjög misþykkt og sumt framræst votlendi losar mikið mörgum árum eftir framræsluna á meðan annað gerir það ekki. Rotnunin losar líka um önnur næringarefni í jarðveginum sem aftur getur aukið grasvöxt og þar með aukið bindingu efnis í hringrás náttúrunnar. Þetta getur leitt til þess að það þurfi minni áburð á framræstu votlendi sem hefur aftur önnur afleidd áhrif á kolefnishringrásina. Það er ekkert einfalt í þessum efnum. Það er því að mörgu að hyggja þegar ákvörðun um endurheimt votlendis er tekin. Forsenda endurheimtar er því úttekt á landi og mat á aðstæðum á hverjum stað. Ég hef því lagt fram allítarlegar, skriflegar spurningar til ráðherra um mat á áhrifum af endurheimt. Spurningarnar miða að því að fá upplýsingar um hvernig lagt sé mat á hvort endurheimt á tilteknu svæði sé líkleg til að draga úr losun kolefnis og/eða auka bindinguna. Þá er einnig mikilvægt, áður en farið er af stað í verkefni sem þetta, að meta hver séu líkleg áhrif á aðliggjandi landsvæði og mannvirki. Það þarf að vera skýrt hvert hlutverk t.d. sveitarfélaganna í leyfisveitingaferlinu er, hver eigi að bera ábyrgð á afleiddu tjóni sem mögulega getur orðið þar sem land sem hefur verið framræst í fjölda ára er endurheimt.