152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[17:18]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil kannski í framhaldinu spyrja hv. þingmann hversu mikilvægt hún telji það vera að það sé samband fyrir alla landsmenn, hvar sem þeir eru á landinu, við umrætt númer, 112. Lendir þú í slysi eða sé á þig ráðist þá sé byggt upp slíkt grunnnet fjarskipta á landinu og því viðhaldið með þeim hætti að það sé tryggt að þú sért ekki á löngum köflum á helstu þjóðvegum landsins, á hringveginum, utan þjónustusvæðis þannig að þú getir ekki einu sinni hringt í þetta númer. Hvað telur hv. þingmaður að þurfi að gerast til að stjórnvöld ræki þær skyldur sínar að tryggja landsmönnum óheftan aðgang að þessu númeri?

Að lokum langar mig aðeins að spyrja hv. þingmann, bara svona til gamans, hvort hún hafi einhvern tímann rekist á númerið 116-000 og 116-111 en þetta eru símanúmerin sem getið er í 97. gr. sem ábendingarlínu vegna barna sem er saknað og hjálparsíma fyrir börn. Er þetta eitthvað sem hv. þingmaður hefur séð áður?