152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er ekki að ástæðulausu að ég hef þær áhyggjur því það var einmitt reynt að koma þessum breytingum inn í fyrri umferðum af svona fjarskiptalagadóti. En í þeirri skoðun sjáum við einmitt að reglugerðin sem þetta byggir á í Evrópu gerir ráð fyrir tilkynningaferli netöryggis, þ.e. netöryggissveitin er að taka við tilkynningum en er ekki inni í öllum fjarskiptafyrirtækjunum að reyna að njósna um það hvort verið sé að gera netárás eða ekki, því að í þeim njósnum er hún einfaldlega að finna allt annað líka. Það er varhugavert. Netöryggissveitin gegnir því hlutverki að fylgjast með að allt sé í gangi, viðvaranir komi frá netöryggissveitum í öðrum löndum, og láta þá öll fjarskiptafyrirtæki hér vita. Hún fær tilkynningu frá einu fjarskiptafyrirtæki hér og lætur þá öll önnur vita og lætur samstarfsþjóðir vita líka. (Forseti hringir.) Það er samhæfingarhlutverk netöryggissveitar, en ekki að vera að stunda njósnir.