152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó einmitt eftir þessu hjá hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson sem nefndi þennan fund og samstarf Norðurlandanna og hvernig vinstri grænu flokkarnir skáru sig þar úr. Ég hafði hugsað mér að nefna það í ræðu minni, mér láðist að gera það, ég bara gleymdi því. En það er óhjákvæmilegt annað en að setja þetta í samhengi við feril þessa máls hér á Alþingi í ljósi þess að Vinstri grænir hafa a.m.k. verið tilbúnir til að nota þetta mál í hrossakaupum en óvíst hvort það var einfaldlega af praktískum ástæðum, ef svo má segja, vegna þess að þeir voru til í að nýta allt fyrir hálendisþjóðgarðinn sinn eða hvort þeim fannst bara ágætt að þetta mál næði ekki fram að ganga vegna hugsanlegra efasemda þeirra um netöryggismál. Öryggi, eins og hv. þingmaður nefndi ágætlega, er hugsanlega í huga hins Vinstri græna þingmanns óhjákvæmilega tengt við vopn. Það kann að vera. Ég fór að velta þessu fyrir mér þegar ég heyrði lýsinguna hér áðan en ég hef ekki svarið við þessu. Það sem við þó vitum er að Vinstri grænir voru tilbúnir til að nota þetta mál í hrossakaupum, hver sem ástæðan var, hvort þeir vildu bara málið burt eða vildu einfaldlega nýta sér það. Það hefur ekki enn náð fram að ganga núna mörgum árum eftir að farið var að tala um mikilvægi þess að innleiða ný fjarskiptalög og þó að tilraunir hafi verið gerðar til að klára þetta. Það myndi óneitanlega hjálpa okkur að átta okkur betur á pólitískum bakgrunni þessa máls og stuðningi við það ef til að mynda hv. þingmenn Vinstri grænna, þó ekki væri nema einn, tækju þátt í þessari umræðu og lýstu afstöðu sinni til þess. Ég ætla bara að nota tækifærið og auglýsa eftir því. Ég held að það væri gagnlegt fyrir umræðuna.