152. löggjafarþing — 59. fundur,  29. mars 2022.

fjarskipti .

461. mál
[19:35]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, menn missa stjórn á tímaskyninu og eru komnir aftur til 1905, er það ekki, á bændafundinn? Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka þar upp hanskann fyrir þá ágætu 200 bændur sem riðu til Reykjavíkur um hásláttinn til að berjast gegn sæsímanum. Þeir voru kannski ekki að berjast fyrir því að fá 5G í staðinn, þeir vildu fá loftskeyti, gott og vel.

En það sem mig langaði kannski aðeins að fá að inna hv. þingmann eftir, og vonandi nær hann líka að klára svar sitt við fyrra andsvari um leið, er hvernig honum líst á frumvarpið sem við erum að ræða hér í dag, svona í grundvallaratriðum. Eru veigamiklir gallar á því? Sér hv. þingmaður fyrir sér að það þurfi að gera veigamiklar breytingar í nefnd á þessu frumvarpi? Eða er þetta allt í áttina?