152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

umhverfi fjölmiðla.

[16:00]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda og hv. þingmanni fyrir þessa umræðu og eins hæstv. ráðherra fyrir hennar innkomu hér. Frjálsir fjölmiðlar eru mikilvægir fyrir lýðræðislega umræðu í samfélaginu en það er auðvitað mikilvægt að aðgengi að upplýsingum um bæði stjórnun, stefnumótun og starfsemi fjölmiðla sé gagnsætt og liggi skýrt fyrir þannig að við vitum hverjir standa á bak við miðlana. RÚV hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þágu þjóðarinnar. Mig langar samt að nota þær fáu mínútur sem ég hef hér til að fjalla aðeins um héraðsmiðla þar sem í svo mörgum samfélögum úti á landi eru það litlu héraðsmiðlarnir, sem heita Dagskrá og annað, sem eru svo gríðarlega mikilvægir fyrir alla umfjöllun í staðbundnum málum; fá kannski ekki pláss í almennri umræðu en geta skipt íbúa hvers svæðis höfuðmáli. Það hefur oft hallað á landsbyggðarmiðlana. Þetta eru miðlar sem oft sinna öðrum og ólíkum verkefnum, sinna hlutum sem eru utan höfuðborgar, menningu, atvinnulífi og öðru sem ekki nær upp á pallborðið hjá stóru miðlunum. Ég vildi því nota minn tíma til að hvetja okkur til að styðja vel við litlu héraðsmiðlana.