Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 383/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

411. mál
[16:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Seðlabankinn ákveður hlutfall annarra eiginfjárauka en verndunarauka. Sá munur er á grunneiginfjárkröfum og kröfum um eiginfjárauka að ef fjármálafyrirtæki uppfyllir ekki grunneiginfjárkröfur getur það sætt afturköllun starfsleyfis eða öðrum veigamiklum inngripum, en ef það uppfyllir ekki kröfu um eiginfjárauka skerðast aðeins möguleikar þess á því að greiða út arð og kaupauka. En tilskipunin gerir ráð fyrir því að lögbær yfirvöld geti tilkynnt fjármálafyrirtækjum um eiginfjárálag og það er eigið fé sem yfirvöld telja æskilegt að fyrirtækin hafi umfram það sem þeim ber skylda til. Slíkar tilkynningar eru ekki bindandi en taldar eru líkur á því að fjármálafyrirtækin muni oftar en ekki kjósa að hlíta þeim. Það er ekki verið að mæla fyrir um tiltekið hámark tilkynnts eiginfjárálags. Þetta hefur ekki efnisleg áhrif á þær heimildir sem Seðlabankinn hefur í dag, eins og ég skil málið. En aftur, ef eitthvað er óljóst í því hvort verið sé að þrengja að Seðlabankanum með þessari innleiðingu þá geri ég ráð fyrir að það sé eitthvað sem muni koma fram við meðferð málsins.