Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 61. fundur,  4. apr. 2022.

ákvörðun nr. 171/2021 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

500. mál
[18:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 171/2021. Ákvörðunin fellir inn í EES-samninginn fjórar ESB-gerðir varðandi greiðslureikninga. Greiðslureikningar eru bankareikningar einstaklinga sem nýttir eru til að inna af hendi greiðslur aðrar en þær sem tengjast atvinnustarfsemi.

Í einni af umræddum gerðum, tilskipun 2014/92/ESB, er mælt fyrir um reglur um gagnsæi og samanburð á gjöldum sem neytendur þurfa að greiða fyrir greiðslureikninga sína. Þá er mælt fyrir um reglur um skipti á greiðslureikningum innan aðildarríkis og reglur til að greiða fyrir að neytendur stofni reikninga vegna greiðslna yfir landamæri. Samkvæmt tilskipuninni skulu greiðsluþjónustuveitendur m.a. láta neytendur fá gjaldskrá þar sem fram koma, ásamt fleiru, gjöld fyrir hverja þjónustu sem greiðsluþjónustuveitandi býður. Þá skulu lánastofnanir veita neytendum aðgengi að almennum greiðslureikningi og er óheimilt að mismuna neytendum að því leyti.

Hinar þrjár gerðirnar sem ákvörðunin varðar leiða allar af fyrrnefndri tilskipun og setja nánari reglur um framkvæmd hennar.

Í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar eru tvær af gerðunum aðlagaðar að tveggja stoða kerfi samningsins. Þær aðlaganir eru í fullu samræmi við þá nálgun sem unnið hefur verið eftir vegna fyrri gerða á sviði eftirlitsstofnana á fjármálamarkaði.

Virðulegi forseti. Ákvörðunin kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur fjármála- og efnahagsráðherra þegar lagt fram frumvarp til innleiðingar á tilskipun 2014/92/ESB á yfirstandandi löggjafarþingi, ég vísa til 417. máls. Hinar þrjár gerðirnar verða innleiddar með reglum sem Seðlabanki Íslands setur.

Ég legg til, virðulegi forseti, að þegar umræðu þessari lýkur verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.