152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[16:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni fyrir fyrirspurnina og byrja á NPA, það er eitt af þeim sorglegu málum sem hafa ekki farið alveg eins og lofað var. Því miður, ef þetta verður staðreyndin, að þeir ætli bara að halda óbreyttum fjármunum til að viðhalda því sem nú þegar er, þá segi ég bara: Guð hjálpi þeim sem eru þarna úti og þurfa virkilega á NPA-þjónustu að halda. Við höfum orðið vör við það hvernig ríkisstjórnin hefur hreinlega neitað einstaklingum um NPA-þjónustu og flutt þá eiginlega hreppaflutningum á hjúkrunarheimili fyrir aldrað fólk, þar sem þeir eiga ekkert heima. Og ef þetta er staðreyndin í fjármálaáætlun, að halda öllu óbreyttu, þá er það líka staðreynd að þá verður gripið til einhverra svona ráða í framtíðinni. Það er auðvitað eitt það skelfilegasta vegna þess að þarna er verið að taka á þeim verst settu, fötluðum einstaklingum, þar sem þeirra eina von eiginlega um sjálfstætt líf er að það verði bætt verulega í NPA-þjónustuna. Ég segi fyrir mitt leyti: Ef það er hægt að gefa milljarða afslátt af bankasölu, ef það er hægt að gefa afslátt af veiðigjöldum, ef það er hægt að styðja einkarekna fjölmiðla og alls konar gæluverkefni, setja 12 milljarða í sýnatökur vegna veiru, hvers vegna í ósköpunum er þá ekki hægt að hjálpa þessum einstaklingum? Eins og oft kemur fram þá er þetta ekki svo mikill fjöldi og þær margskila sér oft þær krónur sem settar eru í þetta.