152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[17:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er áhugavert að heyra hv. þingmann tala um að hér séu kunnuglegir talpunktar. Ég veit ekki alveg til hvers hann er að vísa. Ég vil bara benda á málaflokk 24.1 í þessari fjármálaáætlun þar sem sá málaflokkur hefur verið talsvert til umfjöllunar í dag. Það er þó þrátt fyrir allt verið að bæta í geðheilsuteymin, m.a. geðheilsuteymi fanga og geðheilsuteymi fyrir fólk með taugaþroskaraskanir. Það er líka verið að bæta í teymi fyrir fullorðið fólk með ADHD. Það er verið að efla geðheilsumiðstöð barna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem á að þjóna börnum heildstætt. Það er verið að styðja áfram við þá þjónustu sem mér hefur fundist vera töluð talsvert niður, að það sé bara stöðnun, það sé ekkert að gerast og það sé ekkert áframhald. Það er nefnilega ansi margt sem verið er að gera áfram og styðja við kerfið, áframhaldandi greiðsluþátttaka o.s.frv. sem verið er að setja fjármuni í. Ég er því ósammála þeirri nálgun hv. þingmanns að hér sé allt í stoppi. Og já, ég notaði orðin dauða og djöful vegna þess að mér finnst hv. þingmaðurinn alla vega ekki vera að tala trú inn í fólk, heldur um að hér sé ekkert að gerast og að það sem fram undan er verði ömurlegt. Ég ekki alveg sammála þeirri nálgun. Mér finnst margt gott mega finna hér sem styður við áframhaldandi uppbyggingu félagslegra innviða.