152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[18:23]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aftur þykir mér ánægjulegt hvað við erum sammála um hlutina. Sammála, heyrðist mér, um að kannski hafi verið glannalegt að ráðast í sölu á banka á þessum ofboðslegu óvissutímum í fyrra, í miðjum heimsfaraldri þegar enginn vissi nokkuð hvernig þróun efnahagsmála og eignamarkaða yrði. Það var varað við þessu, var varað við því að hætt væri við því að ekki fengist nógu gott verð fyrir bankann. Þingmenn Samfylkingarinnar vöruðu við þessu. Verkalýðshreyfingin varaði við þessu. Sérfræðingar vöruðu við þessu. En svo fór sem fór. En gott og vel. Höldum okkur samt við umræðuna um heilbrigðismál. Það liggur fyrir samkvæmt þessari fjármálaáætlun, eins og ég nefndi áðan, að rekstrarútgjöld til sjúkrahúsþjónustu eiga bara að aukast um 2 milljarða á ári. Eins og hv. þingmaður nefnir þá er það dropi í hafið miðað við það hve mikil útgjöld fara til málaflokksins árlega. Undir sjúkrahúsþjónustu í fjármálaáætlun heyrir almenn sjúkrahúsþjónusta, sérhæfð sjúkrahúsþjónusta og erlend sjúkrahús og undir þessu eru tveir spítalar. Þetta eru 2 milljarðar. Ef við myndum t.d. auka útgjöld til Sjúkrahússins á Akureyri um 1 milljarð þá stendur bara einn eftir fyrir bæði Landspítalann og alla hina sjúkrahúsþjónustuna. Það er ofboðslega lítið til skiptanna. Þá hlýtur maður að spyrja sig: Á að sækja peningana eitthvert annað? Hvernig á að gera þetta? Hvernig á bæði að gera þetta og svo styðja áfram við að draga úr kostnaðarhlutdeild sjúklinga? Þetta er, eins og ég hef farið yfir hér fyrr í dag, gríðarlegt útgjaldaaðhald sem verið er að boða í þessari fjármálaáætlun. Hefur hv. þingmaður einhverjar áhyggjur af þeirri aðhaldssömu stefnu sem þarna birtist?