152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:35]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ingibjörgu Isakssen fyrir þessa góðu spurningu. Ég hef verið mikil áhugakona um þetta mál, að ráðast í það að ljúka við að stofna sjálfstæða óháða mannréttindastofnun. Hún hefur verið nefnd sem mikilvægur hluti þess að við getum lögfest, eins og hv. þingmaður nefndi hér, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þegar ég settist niður með þetta verkefni sá ég hins vegar að það væri mjög mikilvægt að við legðum í þá stefnumótun sem hv. þingmaður spyr hér um af því að við þurfum að leggja mat á stöðu mannréttindamála á Íslandi. Við þurfum að safna betur saman upplýsingum um hver staðan er í raun og veru. Það er eiginlega tilgangurinn með grænbókinni, að vera undirstaða fyrir stefnumótun. Við viljum reyna að gera þetta þannig að við séum að tala við almenning í landinu. Við erum kannski ekki alltaf að tala um mannréttindi dagsdaglega en þó koma hér upp mál sem eru einmitt mannréttindamál þegar betur er að gáð. Ætlunin er að við verðum komin með niðurstöður af þessari vinnu í upphafi árs 2023 og að frumvarp verði lagt fram haustið 2023, sem sagt vinnan í grænbókinni verði eiginlega undirstaðan fyrir frumvarpið. Þá munum við vonandi verða komin lengra í að meta hver kostnaðurinn þarf að vera við þessa mannréttindastofnun. Þá liggur náttúrlega fyrir, þegar frumvarp kemur fram, útfærsla, til að mynda hvað varðar form og hvað varðar umfang og hvað varðar stjórnskipulega stöðu. Þá munu liggja fyrir hugmyndir um fjármögnun. Hún er ekki í þessari fjármálaáætlun, bara svo það sé algjörlega heiðarlega sagt hér, en ég geri ráð fyrir því að þegar frumvarpið kemur fram þá munum við um leið gera ráð fyrir henni í fjármálaáætlun, sem er þá væntanlega næst á eftir eða á undan.