152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[19:59]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Innviðaráðherra gerir hér að umræðuefni skipulags- og húsnæðismál, nýja málaflokka í nýju og mjög svo stækkuðu ráðuneyti innviða í landinu, og segir þingsályktunartillögu um húsnæðismál væntanlega síðar á árinu en að engin greining á stöðunni liggi fyrir. Mig fýsir að vita hvað valdi því að í hinu stóra og öfluga innviðaráðuneyti liggi engin greining á stöðunni á húsnæðismarkaði fyrir, hvort það sé virkilega þannig að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi ekki greint stöðuna, hvort það sé virkilega þannig að stjórnvöld í landinu viti ekki hver staðan er á húsnæðismarkaði. Getur það verið, hæstv. forseti?

Mig langar svo að minna á að ráðherrann sagði fyrir nokkru að það yrðu byggðar allt að 20.000 íbúðir á næstu fimm árum og þar af 7.000 með aðkomu hins opinbera í formi fjölbreytts húsnæðisstuðnings. Hann sagðist vera með skýr markmið. Þetta var skrifað í grein fyrr í vetur. Það er ekkert í fjármálaáætlun, alla vega við fyrstu skoðun, sem bendir til þess að gert sé ráð fyrir þessari uppbyggingu húsnæðis. Hins vegar stendur þar að ríkisstjórnin ætli að lækka stofnframlög til almenna íbúðakerfisins um 2 milljarða kr. Nú kunna að vera fyrir þessu öllu góðar og gildar ástæður. En tvennt fýsir mig að vita og inna ráðherrann eftir: Hvers vegna hefur staðan ekki verið greind? Hvað vantar upp á það? Hið seinna: Á ég trúa því að lækka eigi framlög til hins almenna íbúðakerfis og stofnframlög um 2 milljarða kr.?