152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[20:39]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Þetta er býsna tæknilegt og flókið mál og ég er ekki viss um að ég geti veitt þingmanninum fullnægjandi svör hér, en skal gjarnan koma þeim á framfæri við fyrstu hentugleika. Það er ekki langt síðan ég átti fund í ráðuneytinu um þessi mál þar sem þetta tengist tveimur ráðuneytum. Þá vorum við að bíða eftir viðbrögðum um ársreikninga, sem eru jú í ráðuneyti viðskipta. Það hefur áður verið vandamál að þessu efni hefur verið beint að röngu ráðuneyti en við höfum reynt að koma fyrirspurninni á réttan stað. Ég fékk ágæta kynningu um daginn á býsna flóknum hlut en það er þannig að ekki er hægt að fullyrða að sú bókhaldsaðferð sem Reykjavíkurborg notar sé ekki fullkomlega eðlileg svo fremi að aðrir hlutir séu með þeim hætti. Þar sem þetta heyrir undir ein þrenn lög þá er um að ræða túlkun á því hvernig þau spila saman, ársreikningalög, sveitarstjórnarlög og síðan lög um opinber fjármál. Þetta spilar eiginlega allt saman í því hvernig úrskurðurinn verður. Ég ætla bara að vera heiðarlegur og segja að ég treysti mér ekki til að gefa þingmanninum það svar sem hann vill fá, já eða nei. Ég held að óskað hafi verið eftir fresti vegna þess að senda þurfti bréf á milli, en aftur með þeim fyrirvara að ég skal koma þessum upplýsingum til þingmannsins og þingsins við fyrstu hentugleika.