152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:05]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Frú forseti. Ég vil þakka utanríkisráðherra fyrir svarið og taka undir og fagna því að í þessari fjármálaáætlun er gert ráð fyrir aukningu til öryggis- og varnarmála, m.a. um 300 milljónir á næsta ári sem eru ætlaðar til viðhalds á varnarmannvirkjum svo að þau standist þær alþjóðlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Það liggur fyrir að meginmarkmiðið með þessu er auðvitað að tryggja varnir landsins í góðu samstarfi við okkar vinaþjóðir. Mér sýnist á áætluninni að gert sé ráð fyrir að viðvera bandalagsríkja okkar aukist um sirka 20% á því tímabili sem áætlunin tekur til. Þó er það svo að maður veltir fyrir sér framtíðinni og auðvitað er þetta framtíðarplagg sem við endurskoðum hér reglulega. Þess vegna kannski vil ég nýta tækifærið til að spyrja ráðherrann, ef kæmi til þess að bandalagsþjóðir okkar myndu óska eftir til að mynda fastri viðveru hér hvort það sé eitthvað sem liggur fyrir sem við myndum horfa til í okkar kostnaðarþátttöku við slíkt. Síðan að lokum vil ég líka þakka ráðherranum fyrir hennar framlag og vinnu að undanförnu við erfiðar aðstæður.