152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[21:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom inn á kjarna máls þegar kemur að því að það blasir við að við erum að takast á við stórt verkefni við móttöku fólks frá Úkraínu. Nú þegar hafa um 600 manns sótt um alþjóðlega vernd en við vitum líka að það eru fleiri hér sem ekki hafa enn þá gert það, kannski sá hluti sem telur sig eiga möguleika á því að snúa aftur heim eða á eftir að gera það síðar. Það endurspeglar kannski líka það hvernig við erum að taka á móti fólkinu þegar það er greinilega verið að opna heimili og dyr fyrir blessaða fólkinu sem kemur hingað. Á sama tíma, ekki bara vegna Covid-19-heimsfaraldurs, ekki bara vegna loftslagsbreytinga heldur meira að segja þótt við horfum bara á afleiðingar af stöðunni í Úkraínu þá vitum við að neyðin og þörfin fyrir aðstoð til þróunarríkja verður meiri. Ég mun berjast fyrir því að það verði ekki að öllu leyti tekið — ef við miðum við að það er kannski 20% af þessum kostnaði sem er svokallaður DAC-tækur kostnaður, sem er það sem hægt væri að taka af þróunarsamvinnufjármunum sem eru núna í fjármálaáætlun — innan úr því svigrúmi vegna þess að ég veit að 0,35% eru fjárhæðir sem er mjög vel varið í ofsalega mikilvæg verkefni víða um heim. Mér finnst það ekki sanngjarnt gagnvart þeim verkefnum og því fólki ef við gerum það og óvissan og aðstæður eru þannig núna að ég held að við þurfum að vera mjög auðmjúk gagnvart þeim breytingum sem gætu átt sér stað og þeim aðkallandi verkefnum sem munu birtast okkur. Mér finnst mjög mikilvægt að við höfum það sjálfstraust og gerum þær kröfur á okkur sjálf að vera raunveruleg þjóð meðal þjóða í því hvernig við bregðumst við þeim aðstæðum og því aukna vonda ástandi sem allt of margir víða um heim þurfa að horfast í augu við á næstunni.