152. löggjafarþing — 62. fundur,  5. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[22:41]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið og fyrir að taka þátt í umræðunni með okkur í kvöld. Þetta eru auðvitað brýn mál, umhverfis- og loftslagsmálin, og þau ættu með réttu að teygja sig í gegnum alla málaflokka fjármálaáætlunar og alla málaflokka ríkisstjórnarinnar, sem ég veit svo sem að er í orði kveðnu en síðan þarf framtíðin að skera úr um það hvort það nái á borðið sjálft. Mig langar sérstaklega að líta til rammans sem er settur um ráðuneyti hæstv. ráðherra og þá lækkun um 600 millj. kr. sem áætluð er á stuðningi við græna fjárfestingu undir lok tímabilsins. Ég hefði ætlað að hæstv. ráðherra legði áherslu á stuðning við einkaframtakið og sæi kosti þess að örva það, ekki síst til að tryggja að framfarir á sviði umhverfis- og loftslagsmála eigi sér ekki einungis stað hjá hinu opinbera heldur í samfélaginu öllu, enda getur nokkur kostnaður fylgt slíkum breytingum fyrir atvinnulífið eins og við þekkjum. Því vil ég spyrja hvort þessi lækkun sé til marks um stefnubreytingu hjá ríkisstjórninni, um að draga úr stuðningi við græna fjárfestingu undir lok tímabils fjármálaáætlunar, eða hvort hér hafi fjármunir verið teknir til að stoppa í gat annars staðar í áætluninni án frekari skýringar.

Síðan langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra um orkuskiptin og fyrirsjáanlega orkuþörf en auðvitað er talsvert tekist á um þessi mál í samfélaginu eins og við þekkjum, mismunandi hugmyndafræði hampað í þessum efnum. Þeir sem segja t.d. að orkuskiptin, sumir hverjir a.m.k., kalli ekki á mikla orkuöflun til viðbótar við núverandi virkjanir vísa þá stundum til þess að nóg væri að eitt af álverunum á landinu myndi hætta starfsemi, þá væri sá vandi leystur, eitt eða jafnvel fleiri álver ef út í það er farið. Mig langaði líka að spyrja hæstv. ráðherra hver skoðun hans er á þessu, bara svona praktískt séð. Gæti ríkisstjórnin tekið þá ákvörðun einn, tveir og þrír, að einhverju tilteknu álveri yrði lokað, þar yrði starfseminni ekki fram haldið í ljósi þeirra samninga sem gilda og ýmissa ákvæða í samningum um framlengingu á þeim og þess háttar og svo jafnframt hvort fýsilegt væri að gera það?