152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

afstaða Bankasýslunnar til upplýsinga um kaupendur Íslandsbanka.

[11:01]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég nefndi það hér í gær að þegar seldur er banki í eigu þjóðar sem er skaðbrennd eftir heilt bankahrun þá sé traust algjört lykilorð. Allir hafa verið sammála um að markmiðið sé traust og heilbrigt eignarhald. Þetta hefur verið endurtekið aftur og aftur og aftur. Síðustu daga hafa verið uppi miklar efasemdir um traustið vegna þess að Bankasýslan taldi að bankaleynd ætti að ríkja um kaupendur, að regluverkið væri þannig að brenndri þjóð sem selur bankann sinn komi það hreinlega ekki við hverjir kaupa. Stjórnarformaður Bankasýslunnar fylgdi þessu svo eftir í viðtali og sagði að þetta mætti skoða í næsta útboði ef menn teldu mikilvægt að vita hver keypti hvað. Ég ætla að endurtaka orð Bankasýslunnar um þessa sölu á eign okkar allra í lokuðu útboði fyrir útvalda: Ef menn telja það mikilvægt að vita hver keypti hvað.

Hvernig má það vera að þetta viðhorf sé uppi innan Bankasýslunnar að loknu lokuðu útboði? Af hverju bjó ríkisstjórnin ekki svo um hnútana í undirbúningi sölunnar að þegar Bankasýslan handvelur kaupendur þá sé það ófrávíkjanlegt skilyrði í útboðinu að þjóðin fái að vita um alla kaupendur? Fjármálaráðuneytið birti svo listann í gær, sem var mjög gott, en því miður fór það svo að birting listans í nafni gegnsæis, til að auka traust, varð til þess að traustið hvarf með gegnsæinu. Hvernig í ósköpunum komast menn að þeirri niðurstöðu að það efli traust á fjármálakerfinu og áframhaldandi sölu fjármálastofnana þegar vænn hluti handvalinna kaupenda eru persónur og leikendur úr bankahruninu? Eigum við að fyllast trausti á heilbrigðu eignarhaldi þegar dæmi eru um handvalda kaupendur sem sæta rannsókn yfirvalda eða hafa jafnvel fengið dóm? Er sátt og traust vegna þeirrar staðreyndar að stórum útgerðaraðilum, sem berjast hart og af alefli gegn því að borga sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir að veiða fiskinn sem þjóðin á, er boðið og þiggja með þökkum að fá nú að kaupa eign þjóðarinnar, nærri 2 milljarða, með afslætti? (Forseti hringir.) Getum við enn þá talað um traust og heilbrigt eignarhald (Forseti hringir.) eftir þessa atburðarás? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)