152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:14]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég styð það sem fram hefur komið um rannsókn á þessu máli. Þetta er ekki bara eitthvert fyrirtæki. Það er verið að tala niður til þingheims og almennings með því að vitna til þess að þetta séu bara heilbrigð og eðlileg viðskipti, trúverðugleiki, traust. Hvað varð um hvítbókina um framtíðarsýn fyrir bankakerfið? Það er farið fram og til baka. Fyrst var talað um lágmörkun kostnaðar. Svo var sagt, og meira að segja vitnað í framkvæmdastjóra Bankasýslunnar, að dreift eignarhald væri ekki forsendan í þessum hluta útboðsins. Það eru 16.000 manns sem eiga í þessu. Litlir aðilar fengu afslátt af hlut sem þeir gátu keypt á markaði eins og allir aðrir. Erlendum spákaupmönnum sem seldu sig út eftir nokkra daga í síðasta útboði var hleypt aftur inn. Það er ekki hægt að færa rök fyrir því að „flippa“ hér þjóðareign. Hver voru skilaboðin frá fjármálaráðherra til Bankasýslunnar? Var bara opinn tékki þegar kom að þóknanatekjum? Það þarf að rannsaka af hverju verið var að greiða 700 millj. kr. af skattfé í óútfylltan tékka (Forseti hringir.) til söluráðgjafa sem er að hjálpa erlendum aðilum að „flippa“ almenningseign.