152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:22]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég gef ekkert rosalega mikið fyrir frumkvæði hæstv. fjármálaráðherra í því að kalla eftir einhverri skýrslu. Síðast þegar fjármálaráðherra gerði það var henni stungið undir stól, skýrslu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum. Ég held að við þurfum að gera aðeins betur en þá.

Ég kem hérna af því að ég tel að það sé farið illa með þingið í þessu ferli. Ráðherra talaði um að menn hafi ráðfært sig við þingið. Ég tel það vera helbert bull. Það var einfaldlega verið að tékka í box. Það var lágmarksaðkoma þingsins að þessu máli, svo mikil lágmarksaðkoma að framkvæmdarvaldið heimtaði að fá niðurstöðu þingsins sem fyrst. Þegar drög birtust frá fjárlaganefnd, meiri hlutanum, átti minni hlutinn að fá bara nokkra klukkutíma til þess að skila sínu áliti, nokkra klukkutíma. Skilaboðin voru í rauninni þau þegar allt kom til alls að það skipti engu máli hvað þingið segði, (Forseti hringir.) það væri búið að ákveða þetta, það ætti að fara í þetta óháð því hvað þingið segði. (Forseti hringir.) Þannig er farið með þingbundið lýðræði samkvæmt stjórnarskrá Íslands af framkvæmdarvaldinu.