152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:32]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði blessun sína yfir það að farin yrði þessi tilboðsleið, m.a. á þeim grundvelli að í fyrri fasa söluferlisins hefði þegar tekist að tryggja dreift eignarhald. Uppleggið frá ráðherra og öðrum var að nú væri kominn tími á stóru og burðugu fjárfestana, langtímafjárfesta, stofnanafjárfesta. Svo blasa þessir aðilar allir við okkur hérna í bakpokanum. Hér hefur fjármálaráðherra talað mikið um armslengdarsjónarmið, eins og Bankasýslan sé einhvern veginn algerlega óháð og sjálfstæð stofnun. En mig langar aðeins að vitna í ágæta grein frá 2013 eftir stjórnarformann Bankasýslunnar, með leyfi forseta:

„Ég er ekki í nokkrum vafa um að þegar þjóðin felur Bjarna Benediktssyni hlutverk, þá þjónar hann hagsmunum hennar af heiðarleika og trúmennsku. Nú ríður á (Forseti hringir.) að sjálfstæðismenn sýni samstöðu og fylki sér að baki Bjarna og forystu flokksins. (Forseti hringir.) Þjóðin þarf á því að halda að Sjálfstæðisflokkurinn mæti sterkur til leiks í kosningunum í vor.“

Þetta segir stjórnarformaður Bankasýslunnar. Þetta eru armslengdarsjónarmið Sjálfstæðisflokksins. Þetta er brandari. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)(Gripið fram í.)