152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:44]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeirri samstöðu sem ég skynja gagnvart því að þingið skipi rannsóknarnefnd. Ég vil ítreka, vegna fyrri reynslu af rannsóknarnefndum, ósk um að þetta verði þriggja manna rannsóknarnefnd sem hafi getu til að sinna öllum þeim hlutverkum sem þriggja manna rannsóknarnefnd getur sinnt. Engan eins manns nefndarbrag á þessu, ég vil hafa það alveg á hreinu. Ég vil líka, í ljósi fyrri reynslu af því að reyna að koma á rannsóknarnefnd um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, vara við og segja að allur dráttur á framgangi skipunar nefndarinnar verður lesinn sem viljandi tafir gagnvart því að rannsóknin fari fram. Litið verður á allt tal um formalíska þætti, og ég veit ekki hvað og hvað sem ég hef upplifað við að reyna að koma á fót rannsóknarnefnd um fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, sem fyrirslátt til að koma í veg fyrir rannsókn. Ég fagna þeim samhug sem ég heyri en ég þarf að sjá verkin tala áður en ég trúi honum í alvörunni.