152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

traust við sölu ríkiseigna.

[11:48]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Virðulegir þingmenn. Ég vil ítreka að það er á vissan hátt skiljanlegt að umræða um sölu á hlut ríkisins í bönkum veki umtal og jafnvel tortryggni í samfélaginu. En ég vil sömuleiðis benda á það að öll umgjörð um sölu bankanna er gjörbreytt frá því sem var þegar þeir voru seldir fyrir aldamót. Það á ekki bara við um hér á landi heldur er það raunin beggja vegna Atlantshafsins. Hér hafa verið settar reglur um sölu og er ekki annað að sjá en að Bankasýslan hafi farið í einu og öllu eftir þeim reglum. Þannig einsetti Bankasýslan sér að hafa opið söluferli, fylgja gagnsæi, gæta hlutlægni sem og hagkvæmni. Ég vil ítreka það að fjármálaráðherra færði Bankasýslunni þetta verkefni, þannig að allt tal um að fjármálaráðherra hafi verið hér með einhver óeðlileg afskipti er hrein og klár firra.

Ég óttast það ekki að við rannsökum þetta ferli frá A til Ö og ég hvet til þess að svo verði gert því að hér er ekkert að fela.