152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:09]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir samtalið í dag. Hún kemur inn á málefni sem er mjög stórt og mikilvægt og nefnist oft kjaragliðnun sem orðið hafi á kjörum öryrkja og eldra fólks. Hv. þingmaður spyr: Mun sú breyting sem boðuð er, bæði í stjórnarsáttmála og líka í fjármálaáætluninni, ekki kosta neitt? Jú, hún mun kosta eitthvað, það er alveg ljóst. Það er ekki gerð grein fyrir þeim kostnaði einfaldlega vegna þess að við munum gera það þegar sá kostnaður liggur fyrir, hversu mikill hann er. Í þessari áætlun erum við að sýna á spilin varðandi fyrstu aðgerðirnar á næsta ári sem tengjast vinnumarkaðnum, því að reyna að búa til fleiri hlutastörf, búa til sveigjanleg störf fyrir fólk með skerta starfsgetu. Það hefur verið eitt af því sem stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir, að það sé ekki nóg að einfalda kerfið og breyta kerfinu, auka tækifæri fólks til að vinna ef það eru ekki til störf við hæfi, þ.e. fjölbreyttari störf, ekki síst þegar kemur að starfshlutfalli eða sveigjanleika, t.d. fyrir fólk sem er með geðraskanir sem getur unnið kannski í þrjá mánuði í fullri vinnu og svo kemur tímabil sem það getur ekki unnið, eða ef það eru einhverjir líkamlegir kvillar sem há fólki. Með þessari fjármálaáætlun erum við að segja: Við ætlum að stíga skref í þá átt á næsta ári og ég get upplýst hv. þingmann um að það er mín áætlun að frá og með 1. janúar 2024 munum við vera komin með nýtt einfaldara kerfi sem verður unnið að fram að þeim tíma. Þess vegna sagði ég hér áðan að í næstu fjármálaáætlun yrði gerð grein fyrir þeim kostnaði sem því fylgir.