152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:33]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjármálaáætlun fyrir 2023–2027 og hér eru til umræðu þau mál sem heyra undir ábyrgð félags- og vinnumarkaðsráðherra. Mig langar sérstaklega að koma inn á málefni aldraðra sem er málefnasvið 28. Samkvæmt stjórnarsáttmála skal farið í heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk. Markmiðið er að bæta lífsgæði með markvissri, samþættri og einstaklingsmiðaðri félags- og heilbrigðisþjónustu sem er veitt á þeim tíma og á þeim stað sem hennar er þörf. Þannig er ætlunin að auka lífsgæði eldra fólks en einnig eru miklir fjárhagslegir hagsmunir af því að fjölga þeim einstaklingum sem taka virkan þátt í samfélaginu og draga úr þörf fyrir flutninga á hjúkrunarheimili eða sjúkrahús. Einstaklingurinn á að vera hjartað í kerfinu og hafa aðgang að samþættri þjónustu, heimahjúkrun og/eða stuðningi. Þessar áherslur stjórnarsáttmálans sem eru tíundaðar í fjármálaáætlun samrýmast einmitt þeim áherslum sem við í Framsókn lögðum í kosningabaráttu okkar. Við lögðum áherslu á að taka utan um málefni aldraðra í víðtæku samráði, við færum í endurskipulagningu málaflokksins þar sem lykilatriði yrði aukin samvinna innan kerfisins. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvernig skipulagi vinnunnar við endurskoðun á þjónustu við eldra fólk er háttað eða verði háttað og hvernig fjármálaáætlun sé ætlað að styðja við þá vinnu og framkvæmd breytinga. Svo langar mig einnig að spyrja út í hvernig gangi að útfæra lög og reglur þannig að eldra fólk eigi raunverulegan kost á töku hlutalífeyris, þ.e. hvernig gangi að koma á auknu valfrelsi við starfslok og og auknum sveigjanleika.