152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:51]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna hér um auðlindamál og sjávarútveginn. Við erum sammála, held ég, um mikilvægi þess að standa vörð um ákvæði laga um stjórn fiskveiða sem kveða á um að nytjastofnarnir séu sameign þjóðarinnar og treysta það í sessi með auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Gerð var tilraun til þess hér á síðasta kjörtímabili, þegar forsætisráðherra lagði fram frumvarp um breytingar á stjórnarskránni, m.a. að setja auðlindaákvæðið þar inn, en það náði ekki fram að ganga eins og við vitum. Auðvitað á síðan að koma arður eða auðlindarenta til þjóðarinnar þegar einkaaðilar nýta sameiginlegar auðlindir hennar. Hér erum við kannski meira að ræða hvort von sé til þess að einhverjar breytingar verði gerðar. Ég verð að segja að við erum sennilega að horfa á stærstu endurskoðun í langan tíma sem fram undan er í fiskveiðistjórnarkerfinu. Hæstv. matvælaráðherra hefur kynnt hvernig hún hyggst nálgast það verkefni í samráðsgátt stjórnvalda, með mjög víðtæku samráði. Ég bind miklar vonir við að þar munum við geta nálgast það verkefni að ná betur utan um þessi mál í samráði og í víðtækri sátt þeirra fjölmörgu aðila sem að þessu koma. Kannski verður verða aldrei allir alveg hundrað prósent sáttir, það er nú yfirleitt ekki þannig. En ég vil gefa hæstv. matvælaráðherra tækifæri til að vinna þessa vinnu og síðan munum við væntanlega sjá afrakstur þeirrar vinnu hér á Alþingi.