152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

skilameðferð lánastofnana og verðbréfafyrirtækja o.fl. .

531. mál
[16:59]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst vissulega tilefni fyrir nefndina til að skoða þetta atriði nánar vegna þess að það er ekki hægt að beita þvingunarúrræðum án lagaheimildar eftir á þegar í ljós kemur að fyrirtæki eða aðilar eru ekki að fylgja þeim reglum sem settar eru. Þetta vitum við. Þau vekja athygli á því að það séu engin úrræði eða viðurlög vegna vanrækslu aðildarfyrirtækja á upplýsingagjöf til sjóðsins. Það kann vel að vera að það sé rétt að ekki sé ákjósanlegt að einhver sjálfseignarstofnun hafi heimild til að beita því sem þau tala um, dagsektum eða öðrum þvingunarúrræðum, enda samrýmist það illa starfsemi sjálfseignarstofnana. Gott og vel. Eins og hæstv. ráðherra minnist á þá væri það kannski frekar í höndum Fjármálaeftirlits Seðlabankans að gera slíkt. En það hlýtur að þurfa að vera í lögunum fyrir fram, ekki eftir að það er komið í ljós að þetta er vandamál, af því að þá getum við ekki beitt þessum þvingunarúrræðum, hvorki dagsektum eins og hér er minnst á né öðrum þvingunarúrræðum til að knýja fram þessa upplýsingagjöf sem lögin gera ráð fyrir. Og þess vegna velti ég fyrir mér hvort það sé ekki bara mikilvægt að nefndin einhendi sér í það að tryggja að Fjármálaeftirlitið hafi þessar heimildir til þvingunarúrræða vegna þess að við viljum auðvitað ekki lenda í því, eins og virðist reyndar oft vera raunin, að við segjum: Já, þetta gæti kannski verið vandamál en við bara komum að því þegar að því kemur, og þá höfum við ekki lagaheimild til að bregðast við. Ég held að það sé ekki æskileg þróun mála og við ættum frekar að einbeita okkur að því að hafa þetta bara tilbúið ef til þess kemur, eins og kemur fram í greinargerð, að aðildarfyrirtæki sjóðsins afhenda honum ekki umbeðnar upplýsingar. Mér finnst ekki hægt að segja að þá muni skapast augljóst tilefni til að skoða það sérstaklega og bregðast við eftir þörfum, ef engin eru verkfærin til að bregðast við.