152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

590. mál
[19:54]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir þessi sjónarmið. Það er þannig í almannatryggingakerfinu að ef fólk hefur einhver réttindi þá eru þau fjármögnuð. Það er meira að segja þannig að ef fólk er með rétt til atvinnuleysisbóta þá eru þau á endanum fjármögnuð, sama hvernig Atvinnuleysistryggingasjóður stendur þá stundina. Ég skil ekki alveg af hverju þetta á að vera eitthvað öðruvísi með NPA-samninga. Þetta eru réttindi sem fólki hafa verið tryggð með lögum. Núna standa yfir mjög athyglisverð málaferli í Hæstarétti þar sem er í rauninni verið að láta reyna á það hvort sveitarfélög hafi heimild til að setja kvóta á fjölda NPA-samninga sem veittir eru. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hver niðurstaðan verður þar. En á endanum er þetta auðvitað eitthvað — ríkið verður að standa við sitt til þess að sveitarfélögin geti sinnt þessari þjónustu. Þegar hæstv. ráðherra barmar sér yfir því hérna að hlutirnir kosti of mikið og þess vegna sé þjónustan ekki fjármögnuð þá er það eitthvað sem endar á því að vera höfuðverkur sveitarfélaganna, samanber 8–9 milljarða halla á rekstri þjónustu við fatlað fólk, sem ég nefndi hérna áðan.