152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[13:58]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Við erum allt í einu að ræða um þessa bankasölu í allt öðru samhengi núna eftir að Sigríður Benediktsdóttir stígur fram. Hún sat í rannsóknarnefnd Alþingis. Hún er hagfræðingur hjá Yale. Hún hefur margvíslega aðra reynslu af störfum innan fjármálageirans, hefur unnið hjá Seðlabankanum. Hún gengur svo langt, sem menn hafa þó ekki mikið verið að gera hér í þessum ræðustól, að tala hreinlega um að það þurfi að rifta hluta af þeim sölum sem gengu í gegn í þessu útboði. Þetta er allt annað samhengi sem blasir við okkur eftir að þetta kemur fram. Og svo má reyndar einnig benda á aðra grein sem er á Kjarnanum þar sem er talað um að útboðið sé í ósamræmi við tilmæli OECD um einkavæðingu. Það er nýleg grein þar líka. Ég tek undir það. Við hljótum að krefjast þess að núna verði málið skoðað upp á nýtt og það getur ekki annað verið en að stjórnarliðar og ríkisstjórnin bregðist við þessu með svolítið einbeittum hætti. Við hljótum að skoða samhengi hlutanna eins og það er núna. Það er gerbreytt eftir að Sigríður Benediktsdóttir stígur fram með svona afgerandi hætti.