152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Bergþór Ólason talaði um kælingu og kælingaráhrif. Ég hef oft kallað þetta þöggun. Þöggunarhandbók, það er grein sem ég hef skrifað þar sem ég útlista einmitt aðferðafræðina sem notuð er til að þagga niður óþægileg mál. Ég ætla aðeins að fara yfir efnisyfirlitið í þöggunarhandbókinni:

Afneitun eða gera lítið úr málinu. — Þetta þekkjum við. Þetta útboð tókst bara stórvel.

Finna blóraböggul. — Nei, þingið gerði þetta.

Skjóta sendiboðann. — Nei, þið eruð bara á móti því að selja bankann yfir höfuð. Það er ekkert hægt að taka neitt mark á ykkur.

Smjörklípuaðferðin. — Sendum þetta á ríkisendurskoðanda.

Afvegaleiðing umræðunnar. — Nei, þið bara treystið ekki ríkisendurskoðanda. Af hverju eruð þið að draga úr trausti á ríkisendurskoðanda?

Að endurskrifa söguna. — Já, ég meina, það stóð aldrei til að selja stórum og hæfum langtímafjárfestum einhverja hluti, við ætluðum að fá alls konar svona djókfjárfesta líka.

Gaslýsingar. — Já, þið sögðuð ekkert um það fyrir útboðið að þið vilduð ekki alls konar svona djókfjárfesta, ég meina, þetta er bara á ykkur, er það ekki? (Forseti hringir.)

Ég mæli með því að þið kynnið ykkur þetta, (Forseti hringir.) þetta er alveg eftir bókinni, hvert eitt og einasta atriði.