152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

457. mál
[15:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hvað dvelur orminn langa? Af hverju fáum við ekkert að heyra frá hæstv. forseta þingsins? Þá er ég meina hv. þm. Birgi Ármannsson, af hverju hefur hann ekki þann myndugleika í sér að skera úr um þetta mikilvæga mál? Það eru grundvallarhagsmunir sem eru undir; traust almennings, traust þjóðarinnar á því hvernig bankakerfi við viljum byggja upp, traust þjóðarinnar á þessari samkomu. Að við getum sameiginlega leitt þessi mál í farveg, þann farveg sem byggir upp traust, trúverðugleika í því hvernig við viljum hafa grundvallarinnviði, þar með talið fjármálastarfsemi, byggða upp hér á landi.

Við eigum að læra af sögunni, sama hversu sár hún kann að vera. Við eigum að þora að horfa á söguna og læra af henni, og ekki bara segja það heldur gera það líka. Það skiptir máli að nýta þau tækifæri og tæki og tól sem rannsóknarnefnd þingsins hefur til þess að kafa ofan í mál, til að byggja upp traust. Þess vegna erum við að fara fram á það við hæstv. forseta að hann skeri skýrt úr um það, komi í lið með okkur og segi: Við skulum setja af stað rannsóknarnefnd þingsins til þess að fara ofan í þetta bankasöluferli til að byggja upp traust þjóðarinnar.