152. löggjafarþing — 67. fundur,  8. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:46]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í 4. gr. laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum segir:

„Þegar tilboð í eignarhlut liggja fyrir skal Bankasýsla ríkisins skila ráðherra rökstuddu mati á þeim. Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað og undirritar samninga fyrir hönd ríkisins um sölu eignarhlutarins.“

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í fjölmiðlum að það hefði algerlega komið honum í opna skjöldu að faðir hans hefði verið einn kaupanda. Samt var hann búinn að fá listann og á að staðfesta listann. Hann sagði í alvöru við fjölmiðla að þetta hefði komið honum í opna skjöldu þegar listinn var birtur í fjölmiðlum. Eigum við að trúa þessu? Eigum við að treysta þessu ferli? Hv. þm. Óli Björn Kárason sagði í þinginu í gær að hann teldi að Ríkisendurskoðun ætti fyrst að fara yfir málið en ef þingið (Forseti hringir.) teldi að það þyrfti frekar að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til að fara yfir söluferlið í þessu útboði þá myndi hann styðja það. Hann sagði aldrei að það væri eftir að (Forseti hringir.) Ríkisendurskoðun væri búin að fara yfir málið heldur bara ef við teldum að það þyrfti. (Forseti hringir.) Já, við teljum það, en hann stendur ekki við orð sín frá því í gær. Hann gerir það ekki. (Forseti hringir.) Af hverju ættum við að treysta honum til að standa við orð sín í sumar?