Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

ábyrgð ráðherra við lokað útboð.

[15:49]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr hvort mér finnist þetta í lagi. Ég get bara vitnað til þeirra gagna sem ég hef undir höndum, og liggja öll fyrir í raun og veru, varðandi þetta mál. Eftir að greinargerð um sölumeðferð liggur fyrir skal ráðherra fela Bankasýslu ríkisins að annast um framkvæmd sölunnar með þeim hætti sem greinargerðin um sölumeðferðina kveður á um. Bankasýslan er því framkvæmdaraðili sölunnar fyrir hönd ríkisins. Hún skal undirbúa sölu, leita tilboða, meta tilboð, hafa umsjón með samningaviðræðum við utanaðkomandi ráðgjafa og væntanlega kaupendur og annast samningagerð. Ekki er gert ráð fyrir aðkomu ráðherra eftir að hann hefur falið Bankasýslu ríkisins framkvæmd sölunnar fyrr en kemur að því að samþykkja sölu og undirritun samninga. Þá skilar Bankasýsla ríkisins þessu rökstudda mati.

Það er svo að ábyrgð og verkaskipting milli ráðherra og Bankasýslu ríkisins samkvæmt lögunum er með þeim hætti að ekki er ætlast til þess að ráðherra hafi afskipti af sölumeðferðinni eftir að hann hefur falið Bankasýslu ríkisins sölu eignarhlutarins. Það má því segja að þarna sé kveðið á um mjög skýra verkaskiptingu milli ráðherra á hverjum tíma og Bankasýslunnar. Síðan getum við haft skoðun á því hvort ferlið hafi uppfyllt þau sjónarmið sem lögð eru til grundvallar í greinargerð. Þá er ég til að mynda að vitnað til þess þegar kemur að skilgreiningu á hæfum fjárfestum og öðru slíku. Þetta er til skoðunar og rannsóknar. Af því að hv. þingmaður spyr þá finnst mér þetta í lagi. Mér finnst mjög mikilvægt að þessi mál séu einmitt öll uppi á borðum og að við skoðum þau til hlítar, að þetta sé rannsakað til hlítar. Þess vegna eru tveir aðilar, Ríkisendurskoðun og Seðlabankinn, að taka þetta mál til skoðunar, af því að við viljum öll að þetta sé í lagi. En það að fella dóm um þetta út frá lögunum, það mun ég ekki gera fyrr en þessar niðurstöður liggja fyrir.