Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:30]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra þessarar spurningar vegna þeirra orða sem fram koma í fréttatilkynningunni, að ekki verði ráðist í frekari sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka að sinni. Þessi fréttatilkynning er send út í beinu framhaldi og í kjölfar þess hvernig til tókst núna. Eins og ég nefndi þá er sú niðurstaða grafalvarleg og segir allt sem segja þarf um það hvort vel tókst til. Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að halda áfram.

Ég hefði áhuga á að heyra hvort það sé einhugur um það innan ríkisstjórnarinnar að halda sölunni áfram við þær aðstæður sem nú eru uppi, að Fjármálaeftirlitið og ríkisendurskoðandi eru að rýna þessa þætti máls. Og allt er opið um það, samkvæmt því sem forystumenn ríkisstjórnarinnar segja að rannsóknarnefnd fái að taka málið til skoðunar, verði þörf á því.

En ég hefði líka áhuga á að heyra orð hæstv. fjármálaráðherra um það hverjar umræðurnar voru í ráðherranefnd um efnahagsmál í aðdraganda sölunnar, hvort það sé rétt sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur lýst, að hún hafi þar haft uppi varnaðarorð. Hún hefur líka lýst því yfir í fjölmiðlum að það sé ekkert í niðurstöðu þessa útboðs sem hafi komið henni á óvart og það er augljóst af orðum hennar að hún telur að ekki hafi vel tekist til. Það eru þessar tvær spurningar; um frekari sölu við þær aðstæður sem nú eru uppi og hvernig umræður voru á milli varaformanns Framsóknarflokksins, forsætisráðherra og fjármálaráðherra í ráðherranefnd um efnahagsmál og þessi meintu varnaðarorð varaformanns flokksins.