Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:46]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður lýsir miklum vonbrigðum sínum með þetta mál allt saman; játar eigin ábyrgð, segir að þau sem komu að málum og ekki gerðu athugasemdir við ferlið beri einhverja ábyrgð, ætli ekki fría sig þeirri ábyrgð. Ég vil minna hv. þingmann á að meiri hlutinn í fjárlaganefnd kvittar ekki upp á endanlega sölu. Það er hæstv. fjármálaráðherra sem gerir það.

Fram hefur komið að hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra hafi lýst efasemdum sínum um þetta ferli áður en kom að sölunni, segist hafa lýst þeirri skoðun sinni í ráðherranefnd og í ríkisstjórn. Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann hafi orðið var við að hæstv. ráðherra hafi lýst sínum efasemdum um þetta ferli í þingflokki Framsóknarflokksins eða við einstaka þingmenn á förnum vegi, á göngunum eða annars staðar, í tveggja manna tali, hvort hann muni eftir því að hún hafi lýst einhverjum efasemdum um þetta mál allt saman.