Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka spurningarnar. Í fyrsta lagi að eiga tvo banka. Nei, ég held að það sé alveg tilgangslaust fyrir ríkið að eiga tvo banka. Þegar ríkið á bara á einn banka hefur fólk sem vill vera í viðskiptum við ríkisbanka banka til að versla við. Mér finnst það ekki flókið í rauninni.

Bankasýslan og armslengd: Mér finnst fyrirkomulagið með Bankasýsluna vera ágætt, hvernig það er ákveðinn aðili sem fylgist með, kemur með ráðleggingar til ráðherra, ráðherra getur leitað umsagna, sett ákveðin markmið, fagleg markmið um það hvernig á að framkvæma söluna, salan er framkvæmd og svo leggur ráðherra mat á hvort faglega hafi verið staðið að framkvæmdinni og kvittar síðan undir. Mér finnst ekkert að þessu ferli en það er hægt að klúðra því. Því miður er hægt að klúðra, af því að fólk er fólk og það er að stússast í öllum þessum atriðum ferlisins. Þó að við hendum því ferli út og setjum eitthvað annað í staðinn er það samt fólk sem verður í því ferli sem getur klúðrað málum alveg hræðilega. Ég sé ekkert sérstaklega mikið að þeirri hugmynd sem Bankasýslan er sett upp með. Ég sé alveg hvar armslengdin er o.s.frv.

Hvernig ráðherra, sem er síðasta spurningin, á að fara yfir einstaka tilboð — það er rosalega mikilvægt. Ég hef verið að taka dæmið t.d. þegar ráðherra fór yfir valið vegna Landsréttar. Það er alveg skýrt að ráðherra mátti taka umsögnina til sín og gera breytingar, varð bara gera það með rökum og á faglegum forsendum, ekki pólitískum forsendum. Þannig að nei, stjórnmálamaður á alls ekki að koma inn í þetta tilboðadót og segja: Samkvæmt pólitískum skoðunum mínum á þessi og hinn og fara burt, heldur á að gera það á faglegum forsendum. Við erum með fullt af fordæmum um hvernig á að gera það í stjórnsýslulögum og öðru. (Forseti hringir.) Um leið og það verður pólitísk ákvörðun að henda einum út o.s.frv. (Forseti hringir.) erum við farin að tala um misnotkun valds, að sjálfsögðu.