Bráðabirgðaútgáfa.

152. löggjafarþing — 68. fundur,  25. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[22:33]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem flutt var hér áðan. Mig langaði aðeins að nefna hlut sem ég hef nefnt fyrr. Mér finnst þetta bara svolítið merkileg orðræða sem á sér stað. Það er tiltekið hér í hverri ræðunni á fætur annarri hjá stjórnarliðum, og einkum og sér í lagi virðist það nú vera hjá þingmönnum VG, að menn telji sér það svakalega mikið til tekna að ríkisstjórnin hafi farið þá leið, fjármálaráðherra, að birta lista alveg niður í öreindir yfir þá sem keyptu í bankanum. Mig langar bara að skjóta smáspurningu hér inn: Eigum við ekki að ganga að því gefnu að framvegis og alltaf eigi það að vera ófrávíkjanlegt skilyrði að þegar eigur almennings eru seldar, eða verið að höndla með svona mikilsverða hagsmuni almennings, þá sé bara gegnsæi í öllu? Það á ekki að þurfa að vera þess háttar fyrirkomulag að menn geti einhvern veginn gumað sig af því eftir á að hafa tekið ákvörðun um að birta lista. Auðvitað átti þetta bara að liggja fyrir. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður ekki sammála mér um það að þetta eigi bara að liggja fyrir frá fyrstu stundu og til hinnar síðustu? Svona listar eiga að liggja fyrir.