152. löggjafarþing — 68. fundur,  26. apr. 2022.

sala hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[00:02]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þessum flótta þingmanna Framsóknarflokksins þegar kemur að orðum hæstv. viðskiptaráðherra. Við erum ekki að biðja um neitt annað en að leggja mat á opinberar yfirlýsingar ráðherrans. Ráðherrann kemur í fjölmiðlaviðtöl og segir eftir á: Ég talaði gegn því að þessi framkvæmd yrði og ég sá það fyrir að þetta yrði klúður. Hvað finnst hv. þingmanni um það að ráðherrann hafi ekki gert grein fyrir þessari afstöðu sinni opinberlega áður en salan fór fram? Er það ekki ábyrgðarhluti? Við erum ekki að vísa í eitthvert tveggja manna tal. Við þurfum ekki að hafa átt sæti við borðið þegar varnaðarorðin féllu í ráðherranefndinni, ég er bara að tala um að opinberlega féllu þau orð ráðherra að hún hafi séð fyrir að þetta myndi enda með klúðri og hún hafi varað við. Bar ráðherranum, varaformanni Framsóknarflokksins, ekki siðferðisleg skylda til að vara almenning við því sem hún hafði varað aðra ráðherra við? Ég er að vitna í opinber ummæli, ekki það sem fór fram á fundum.