152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[17:38]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Þegar stjórnarliðar klifa á því að vilja velta við öllum steinum þá dettur mér í hug gamall félagi okkar frá Grikklandi, hann Sýsifos, sem lenti í því að vera alltaf að velta við steinum en það var alltaf sami steinninn. Hann var alltaf að velta sama bölvaða steininum upp sömu bölvuðu hlíðina. Mér líður eins og stjórnarliðar vilji þetta, vilji velta þeim eina steini að hengja alla sök á Bankasýslu ríkisins, að finna allar mögulegar leiðir til þess að Bjarni Benediktsson beri ekki pólitíska ábyrgð heldur sé hægt að skella henni allri á embættismennina sem fóru eftir leiðbeiningum hans. Hvers vegna viljum við rannsóknarnefnd? Jú, það er m.a. vegna þess að hún nær betur utan um verkefnið, vegna þess hvernig hún er skilgreind í lögum, heldur en Ríkisendurskoðun. Við viljum hana vegna þess að hún getur metið það miklu betur en Ríkisendurskoðun hvort ábyrgðin liggi á borði Bjarna Benediktssonar, (Forseti hringir.) hvort ábyrgðin liggi á borði ráðherranefndar um efnahagsmál, (Forseti hringir.) hvort ábyrgðin liggi á ríkisstjórnarborðinu. Þar hefur Ríkisendurskoðun (Forseti hringir.) ekki sama umboð samkvæmt lögum, ekki vegna þess að fólk vantreysti henni.