152. löggjafarþing — 69. fundur,  26. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[19:11]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Mig langar að byrja á því að svara spurningu hv. þm. Bergþórs Ólasonar áðan þar sem hann var að tala um úrræði fyrir börn með alvarlegan þroska-, hegðunar- og geðvanda. Og nei, það eru ekki til viðeigandi úrræði fyrir þann hóp. Þetta er náttúrlega mjög alvarleg staða sem bæði sveitarfélög og ríki standa frammi fyrir. Það vantar svakalega sérhæfð úrræði fyrir þennan hóp sem er með mjög þungar og miklar þarfir á þjónustu. Það vantar sérhæfða þjónustu, það vantar úrræði og það vantar eiginlega vitundarvakningu gagnvart því að þetta á ekki að vera lögreglumál og það á ekki að koma fram við þessu börn eins og einhvers konar glæpamenn eða annað. Það þarf að nálgast þennan hóp af umhyggju, virðingu og nærgætni og fara í nýjar leiðir með nýjum úrræðum.

Hæstv. mennta- og barnamálaráðherra sagði áðan að það væru ekki til gögn um t.d. líðan barna og annað. Mig langar að benda hæstv. mennta- og barnamálaráðherra á það að Rannsókn og greining hefur verið að leggja spurningalista fyrir nemendur í grunnskólum landsins, og þá sérstaklega í unglingadeild, og einnig menntaskóla, alla vega frá því að ég var barn. Það eru gögn á heimasíðu þeirra frá 2007 þar sem er hægt að sjá hvernig nemendum líður og fleiri upplýsingar um börn landsins sem eru mjög áhugaverðar. Ég vona að þessar upplýsingar séu notaðar í ráðuneytinu í samstarfi við Rannsókn og greiningu eða aðra sérfræðinga á þessu sviði.

Við erum hér að tala um börn og barnavernd og barnaverndarnefndir og þá langar mig aðeins að koma inn á ný gögn frá Rannsókn og greiningu þar sem þau eru að skoða líðan barna í unglingadeildum landsins árið 2022. Þar kemur fram að börnum í 8., 9. og 10. bekk landsins, sem áttu að svara hvort staðhæfingin „ég er hamingjusöm eða hamingjusamur“ ætti mjög vel við þau, líður verr en áður. Börnum í unglingadeildum landsins líður verr. Árið 2018 sögðu 41% barna í 10. bekk að þessi setning lýsti þeim vel en núna árið 2022 segja 28% barna í 10. bekk að þessi setning, ég er hamingjusöm eða hamingjusamur, lýsi þeim vel. Hamingjan er minni hjá öllum bekkjum í unglingadeildum landsins, hjá 8., 9. og 10. bekk. Næsta staðhæfing sem þau skoðuðu hjá Rannsókn og greiningu var: Ég er ánægður með lífið. 40% barna í 10. árið 2018 sögðu að þessi setning ætti vel við sig. Árið 2022 eru 27% barna í 10. bekk ánægð með líf sitt eða alla vega segja að sú staðhæfing lýsi þeim mjög vel.

Ofbeldi hjá börnum hefur einnig aukist. Árið 2012 voru 78 ofbeldisbrot skráð hjá lögreglu þar sem grunaðir voru yngri en 18 ára en árið 2021 voru brotin orðin 219. 90 börn 17 ára og yngri eru einnig á sakaskrá og ekki er tiltekið í hversu langan tíma. Ég vil bara að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hafi þessar tölur og þetta í huga.