152. löggjafarþing — 70. fundur,  27. apr. 2022.

um fundarstjórn.

[16:39]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég geri ekki athugasemdir við framgang nefndarmanna í fjárlaganefnd í morgun sem stóðu sig með mikilli prýði. Aftur á móti þóttu mér svörin rýr, ég fer ekkert ofan af því. Það sem við erum að ræða hér — þegar ég tala um siðrof. Á sínum tíma, þegar bankarnir voru seldir, seldu menn sjálfum sér bankann. Menn lánuðu hver öðrum til að kaupa þennan banka. Hvað er það þegar menn búa til og tala um einhverja stóra mynd en lauma svo vinum sínum með? Er það ekki siðrof? Hver ber ábyrgð? Er það verðbréfasalinn úti í bæ eða er það Bankasýslan eða er það ráðherrann? Hver ber ábyrgð? Við heyrum ráðherra segja: Bankasýslan ber ábyrgð og ég ætla bara að loka henni. En Bankasýslan segir: Verðbréfaguttinn ber ábyrgð. Það ætlar enginn að axla ábyrgð. Er hægt að útvista pólitískum verkefnum og segja svo bara: Það var ekki ég, það var hinn?