152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

niðurstöður úttektar á stöðu og áskorunum í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, munnleg skýrsla umhverfis-, orku og loftslagsráðherra. - Ein umræða.

[14:23]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Eitt af mínum fyrstu embættisverkum sem ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála var að setja af stað vinnu við gerð skýrslu um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum með sérstakri tilvísun til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum, stundum kölluð grænbók. Starfshópurinn sem ég skipaði skilaði af sér skýrslunni í mars síðastliðinn og er hana að finna á vef ráðuneytisins. Markmið og tilgangur skýrslunnar var að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsinga um lykilþætti á sviði orkumála á aðgengilegu formi til upplýsingar fyrir stjórnvöld, hagaðila og almenning. Mér þykir hafa tekist vel til þar sem yfirgripsmikið upplýsingarit um orkumál er komið fram. Skýrslan tæpir einnig á helstu verkefnum og áskorunum sem við stöndum frammi fyrir með sérstakri vísan til loftslagsmála. Skýrslan var unnin í víðtæku samráði, eins miklu og takmarkaður tími gaf tækifæri til. Ekki er um að ræða stefnuskjal heldur safn upplýsinga sem við getum notað til að taka betur upplýstar ákvarðanir. Meginniðurstaða skýrslunnar er að í gegnum loftslagsmarkmið Íslands þurfi að móta betur þá orkuframleiðslu og orkuflutning sem er grunnur að framfylgd orkuskipta í samfélaginu. Við orkuskipti bætist einnig orkuþörf til frekari vaxtar atvinnuveganna. Bætt orkuöryggi kallar á aukna raforkuframleiðslu og öflugra flutnings- og dreifikerfi sem aftur kallar á heildrænt skipulag orkukerfisins og samþættingu verkferla.

Sex sviðsmyndir eru settar fram í skýrslunni sem endurspegla mismunandi áherslur í þróun samfélagsins og atvinnulífs í framtíðinni. Þær spanna allt frá lítilli sem engri viðbót við raforkuframleiðslu Íslands til ríflega tvöföldun hennar eða 124% aukningar fram til ársins 2040. Það á eftir að svara þeirri spurningu hvort margvísleg áform nái fram að ganga um uppbyggingu nýrrar útflutningsstarfsemi sem myndi auka verulega eftirspurn eftir raforku. Enn fremur hafa komið fram stórtæk áform um raforkuöflun til framleiðslu vetnis og rafeldsneytis.

Ísland hefur að mörgu leyti sérstöðu í málefnum orkunýtingar og orkuskipta. Sem eyja langt frá meginlandi Evrópu og Norður-Ameríku er Ísland með einangrað raforkukerfi. Landið býr yfir öflugum orkuauðlindum í fjölbreyttri og um margt sérstæðri náttúru með ríku verndargildi. Einnig hefur Ísland þá sérstöðu meðal þjóða að nánast ekkert jarðefnaeldsneyti er notað við raforkuframleiðslu og húshitun. Þetta þýðir að samdrátturinn verður að fara fram í vegasamgöngum, sjávarútvegi og flugsamgöngum. Þar með eru orkuskiptamöguleikar landsins færri og þrengri en annarra ríkja og orkuskipti í vegasamgöngum þurfa að vera hröð. Orkuskiptum sem byggjast á innlendum orkugjöfum fylgir aukið orkuöryggi, minna gjaldeyrisútflæði og minni heilsuspillandi mengun. Stjórnvöld hafa í gegnum orkusjóð stutt innviðauppbyggingu fyrir rafbíla og í höfnum landsins. Til stendur að styðja enn frekar við orkuskipti, m.a. í þungaflutningum, iðnaði og rafeldsneytisframleiðslu. Framboð farartækja fyrir rafeldsneyti og vetni, hvort sem það er í þungaflutningum eða flugi og skipum, er enn takmarkað eða á þróunarstigi. Meðal annars af þeim ástæðum er mikilvægt að efla orkusjóð, auka rannsóknir á innlendum orkutækifærum og leita eftir víðtæku samstarfi við erlendar stofnanir og fyrirtæki til þess að þróa og innleiða tæknilausnir. Orkuþörf vegna fullra sjálfbæra orkuskipta verður einnig mætt með bættri orkunýtni og orkusparnaði, m.a. með tækniþróun og aflaukningu núverandi virkjana. Aukin orkunýtni við raforkuframleiðslu og orkunotkun og aukinn sparnaður raforku á heimilum jafnt sem í atvinnulífi hefur þýðingu gagnvart framtíðarorkuþörf og stuðlar að orkuskiptum.

Ljóst er að áframhaldandi aukin eftirspurn verður eftir raforku frá stórnotendum og orkusækinn iðnaður verður fjölbreyttari til framtíðar. Margvísleg áform eru uppi og hefur fjölmörgum verkefnum verið hafnað vegna stöðu orkumála og skorts á raforku og hindrana í flutnings- og dreifikerfi raforku. Núverandi stórnotendur hafa margir hverjir hug á auknum fjárfestingum og vaxtaráformum, m.a. hjá álverum, gagnaverum og í líftækniiðnaði. Líklegir kaupendur orku hér á landi miðað við þróun á síðustu árum og til framtíðar eru fjölbreyttur iðnaður, m.a. málmiðjuver, gagnaver, líftækniiðnaður og matvælaframleiðendur, fiskeldisfyrirtæki og framleiðendur rafeldsneytis. Ábendingar eru um glötuð atvinnutækifæri í ýmsum landshlutum vegna stöðu orkuframboðs eða -flutnings. Slæmt vatnsár 2021 samfara umframeftirspurn á raforku hefur leitt til þess að Landsvirkjun hefur nýtt heimild til að skerða raforkuafhendingu til þeirra aðila sem samið hafa um skerðanlega raforku. Það eru fiskimjölsverksmiðjur, stórnotendur og fjarvarmaveitur.

Virðulegi forseti. Orkuöflun er mikilvægur þáttur í nýtingu náttúruauðlinda landsins sem býr yfir fjölbreyttum orkuauðlindum á stórum landsvæðum. Jafnframt einkennist Ísland af sérstæðri náttúru og landslagi sem hefur hátt verndargildi. Nýting svæðisbundinna orkuauðlinda vegur því þungt í þeirri mikilvægu stefnumörkun að leita jafnvægis á milli nýtingarinnar og náttúruverndar.

Langtímaorkustefna fyrir Ísland var kynnt fyrir um ári síðan. Orkustefnan var unnin í þverpólitísku samstarfi og í samráði við hagsmunaaðila. Fulltrúar allra þingflokka auk fjögurra ráðuneyta áttu sæti í starfshópnum sem vann stefnuna. Einhugur var um niðurstöðuna. Stefnan leysir auðvitað ekki öll ágreiningsmál en hún leiðir fram hvað við getum verið sammála um þegar við setjumst niður með einlægan vilja til að koma okkur saman um grundvallarmarkmið. Það er ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegur vegvísir til framtíðar. Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun landsvæða eða rammaáætlun hafa að markmiði að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati. Þar verði tekið tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Alþingi hefur ekki afgreitt rammaáætlun frá 2015. Nauðsynlegt er að höggva á þá hnúta sem verið hafa í meðferð rammaáætlunar eða að finna annað fyrirkomulag sem hefur í för með sér bætta málsmeðferð um orkuframkvæmdir.

Orkumálin hafa skýrst nokkuð með stöðuskýrslu og stefnu. Við erum komin með heildrænt stöðumat sem gerir alla framtíðarsýn auðveldari. Stefnan leiðir okkur inn í nýja tíma með sjálfbæra þróun að leiðarljósi þar sem jafnvægi ríkir á milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Okkur er falið að gæta vandlega að hinu viðkvæma jafnvægi milli verndar náttúrunnar og nýtingar hennar. Aðeins með því munum við uppskera sátt um orkumálin til framtíðar litið. Þannig uppfyllum við markmið um sjálfbæra þróun sem er að mæta þörfum nútímans án þess að aftra kynslóðum framtíðar frá því að mæta sínum þörfum. Uppfærð orkuskiptaáætlun sem boðuð er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar mun varða veginn inn í framtíðina.