152. löggjafarþing — 71. fundur,  28. apr. 2022.

málefni innflytjenda.

271. mál
[19:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þetta mun vera síðasta ræða mín um þetta mál hér í 2. umr. í ljósi þess samkomulags sem náðist og hv. þm. Bergþór Ólason kynnti hér áðan. Í þessari umræðu hef ég leitast við að draga fram umfang þess viðfangsefnis sem við er að eiga og eðli þess og fyrir vikið velta upp lausnunum sem virka með tilliti til raunverulegra staðreynda málsins. Það er eins með þetta og svo mörg af stærri viðfangsefnum stjórnmálanna að menn nálgast þau í allt of miklum mæli út frá frösum og yfirborðsmennsku, frekar en að ræða staðreyndir sem stundum getur verið erfiðara við að eiga. Það eru vissulega margar staðreyndir í þessum málaflokki sem eru erfiðar. Það er til að mynda ljóst, eins og ég hef rakið hér í nokkrum ræðum, að umfang þessa viðfangsefnis mun bara aukast á komandi árum. Þrátt fyrir að það sé almennt friðvænlegra í heiminum en var lengst af á 20. öldinni, auðvitað með undantekningum sem við þekkjum, þá hefur straumur flóttafólks aukist til mikilla muna og þrátt fyrir að velmegun í heiminum sé mun meiri en hún hefur nokkurn tímann verið á fyrri öldum þá mun það líka ýta undir aukinn straum flóttamanna. Það er því ekki þannig sem stundum er haldið fram að það sé aukin fátækt sem valdi auknum straumi. Nei, það er aukin velmegun og aukin fjarskipta- og samgöngutækni sem ýtir undir aukinn straum. Svo bættist það nú við, frú forseti, að ég fór í nokkrum ræðum yfir mannfjöldaþróun og las þar upp tölfræði sem ég geri ráð fyrir að að mörgum hafi þótt áhugaverð, mér fannst það alla vega þegar ég var að skoða þetta.

En allt leggst þetta á eitt við að minna okkur á að þetta er málaflokkur sem kallar á ákveðna forgangsröðun til að við getum aðstoðað þá sem þurfa mest á hjálpinni að halda og sem flest af því fólki því það er óraunhæft að nálgast þetta út frá frösunum og þeirri stefnu sem maður hefur heyrt fleygt í umræðunni nú og reyndar áður, að það eigi einfaldlega að taka á móti öllum sem vilji flytja til vesturlanda, til Íslands eða annarra landa, í leit að betri kjörum. Það er ekki raunhæft og við hljótum að gera okkur grein fyrir því, a.m.k. hafa stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndum, ekki hvað síst í Danmörku, áttað sig á þessu og danskir sósíaldemókratar hafa lagt fram stefnu sem gengur þvert á það sem ríkisstjórn Íslands leggur til með þessu frumvarpi sem við höfum verið að ræða hér. Það er því afskaplega mikilvægt að við nýtum tímann sem nú gefst í nefndinni og svo í 3. umr., ákveði menn að halda þessu máli til streitu, til að ræða raunverulegt innihald málsins og mikilvægi þess að gera á því breytingar. Það að fara í öfuga átt við hin Norðurlöndin núna mun enn auka á það ójafnvægi sem við sjáum nú þegar þar sem nífalt fleiri fengu hæli á Íslandi Covid-árið 2020 en í Danmörku, hlutfallslega nífalt fleiri. Slíkur er orðinn munurinn en það er afleiðing af þeirri stefnu sem íslenska ríkisstjórnin hefur kynnt, þeim skilaboðum sem hún hefur sent frá sér og um leið auðvitað líka afleiðing af þeim skilaboðum sem hafa komið frá dönskum stjórnvöldum. Svoleiðis að ef menn ætla enn að bæta þarna í með því að fara í þveröfuga átt við Dani þá er ekki víst að við ráðum við það. Þetta er orðið sérstaklega aðkallandi nú þegar liggur fyrir að við munum þurfa og vilja taka við miklum fjölda flóttamanna frá Úkraínu en eins og hæstv. dómsmálaráðherra benti á fljótlega eftir upphaf stríðsins þar þá hefur kerfið verið teppt. Gallar á kerfi hælisumsókna hér á Íslandi hafa teppt kerfið og það hefur gert okkur erfiðara fyrir en ella þyrfti að vera að bregðast við þessu nýja og umfangsmikla neyðarástandi, ástandi sem er mun meira í ætt við það sem sáttmála Sameinuðu þjóðanna um móttöku flóttamanna var ætlað að takast á við heldur en þann straum förufólks sem nú birtist víða um heim. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég veit að tíminn er búinn. Ég hefði viljað segja ýmislegt fleira en segi þetta gott í bili. Við sjáumst í 3. umr.