152. löggjafarþing — 72. fundur,  29. apr. 2022.

barnaverndarlög.

584. mál
[12:03]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég skrifaði ekki undir þetta nefndarálit og ætla aðeins að gera grein fyrir þeirri ákvörðun minni. Ég hef mikinn skilning á sjónarmiðum sveitarfélaganna, um að frekari undirbúningstíma þurfi til að uppfylla ákvæði barnaverndarlaganna, en til stendur að koma á fót barnaverndarþjónustu sem á að taka við af barnaverndarnefndum sveitarfélaganna sem á að leggja niður. Það er ljóst að ef barnaverndarnefndir sveitarfélaganna verða lagðar niður án þess að við þeim taki barnaverndarþjónustan þá lenda hagsmunir barna á milli skips og bryggju um óákveðinn tíma með tilheyrandi afleiðingum. Það er náttúrlega ólíðandi. Þess vegna styð ég frestun framkvæmdar á lögunum vegna þess að hagsmunir barna þurfa alltaf að hafa í forgangi, það er mjög mikilvægt. Stjórnarmeirihlutinn hefði hins vegar getað brugðist við mun fyrr til þess að standa vörð um hagsmuni barna með fullnægjandi þinglegri meðferð frekar en að ætla að keyra málið í gegn á hundavaði án þess að þingmenn geti kynnt sér málið nægilega vel svo að hægt sé að afgreiða málið með faglegum hætti. Það er bara mín reynsla af því að hafa unnið hér við lagagerð að það er allt of oft sem við erum að flýta málum í gegn og svo koma í ljós villur sem hafa verið gerðar og þá erum við í vinnu við að laga einhverjar villur og oft eru afleiðingarnar af því gífurlega miklar. Í ljósi þess að það er nægilegt svigrúm til að vinna málið betur og með faglegri hætti eftir þinghlé, vegna sveitarstjórnarkosninga, fyrir gildistíma laganna þann 28. maí hefði ég talið betra að fara þá leið að klára þetta mál eftir að við höfum fengið umsagnir í rólegheitum bara strax eftir kosningar. Það hefði ekki haft nein neikvæð áhrif á getu okkar til að afgreiða þetta mál tímanlega. Ég vildi bara koma því á framfæri. En annars styð ég þetta og mun greiða atkvæði með þessari frestun.