152. löggjafarþing — 73. fundur,  29. apr. 2022.

atvinnuréttindi útlendinga.

482. mál
[12:24]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og fyrir að leggja þetta mikilvæga mál fram, um einstaklinga sem flytjast til innan viðskiptafyrirtækis með starfsstöð hér á landi. Þetta er frumvarp sem er ívilnandi fyrir ákveðinn hóp fólks sem vill búa og starfa á Íslandi. En um leið liggur hér fyrir þinginu frumvarp frá öðrum ráðherra sem mér heyrist hæstv. ráðherra smám saman vera að verða ánægðari með eftir að hafa tekið einhverjum breytingum. Það frumvarp felur enn þá í sér að umsækjendur um alþjóðlega vernd verða sviptir réttinum til grunnþjónustu þegar þeir hafa fengið lokasynjun á umsókn sinni. Það felur í sér að tíminn sem umsækjendur hafa til að leggja fram og afla gagna verður styttri á Íslandi en á Norðurlöndunum og frumvarpið felur í sér að umsækjendur um alþjóðlega vernd verða undanskildir ákveðnum lágmarksréttindum sem borgurum á Íslandi eru tryggð í stjórnsýslulögum. Eins felur frumvarpið í sér að þau sem hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru ríki, eins og Grikklandi eða Ítalíu, verða útilokuð frá því að geta fengið alþjóðlega vernd hér á landi með mjög vélrænum hætti.

Hér sjáum við í raun tvö frumvörp á dagskrá. Annað er alveg gríðarlega ívilnandi fyrir ákveðinn hóp fólks sem vinnur hjá viðskiptafyrirtækjum og hitt er gríðarlega íþyngjandi fyrir annan hóp fólks sem stendur einna verst í heiminum. Mig langar bara að spyrja hæstv. ráðherra hvað þetta segi okkur um útlendingastefnu ríkisstjórnarinnar, hvort hann sé ánægður með þetta og hvort hann sjái einhverja stéttapólitík í þessari mismunandi nálgun, annars vegar hvað varðar umsækjendur um alþjóðlega vernd, oftast frá mjög fátækum ríkjum, og hins vegar fólk sem vinnur hjá viðskiptafyrirtækjum.