152. löggjafarþing — 75. fundur,  16. maí 2022.

útlendingar.

595. mál
[19:28]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvaða atriði ég ætti að telja upp sem eitthvert meginatriði í því hvað það er sem skiptir meira máli en önnur í þessu til að greiða fyrir málsmeðferð og gera hana skilvirkari, en þau eru nokkur sem ég fór ítarlega yfir í ræðu minni áðan. Tel ég líkur á að þetta frumvarp verði að lögum? Já, ég geri mér góðar vonir um það. Eins og kom fram í ræðu minni hér áðan þá var ég að nálgast aðalágreiningsmálið sem hefur verið uppi sem snýr að prófum út af Covid-veikindum. Nú hafa aðstæður breyst þannig að ég tel ástæðu til að nefndin fjalli ítarlega um það og skoði hvort það megi ekki falla úr gildi. Ég held að það geti orðið ágætismálamiðlun í þessu. Það er alla vega það atriði sem í allri gagnrýninni umræðu, bæði á vettvangi stjórnarflokkanna, sem ég hef tekið þátt í, og reyndar í hinni almennu umræðu um málið eftir að það kom fram, er kannski helsta gagnrýnin á málið. (Forseti hringir.) Það er þá úr sögunni og það eykur væntingar mínar til þess að málið klárist.